Skeljungur hf.: P/F Magn vann útboð og stefnir að uppbyggingu vindmyllna í Færeyjum í samstarfi við þarlenda lífeyrissjóði

Færeyska raforkustofnunin, Orka, samþykkti í dag tilboð sem dótturfélag Skeljungs í Færeyjum, P/F Magn, lagði inn fyrir hönd óstofnaðs félags um leyfi til uppbyggingar og rekstur vindmylla á landsvæði sem nefnist Flatnahagi, í Færeyjum, og kaup á þeirri orku sem framleidd verður þar. Tilboðið er gert með nokkrum fyrirvörum, m.a. um samþykki stjórnar og fullnægjandi fjármögnun.

Verði af fjárfestingunni verður hún í samstarfi við færeysku lífeyrissjóðina Lív 2 og Lív 3 sem munu eiga 60% í hinu óstofnaða félagi en Magn verður minnihlutaeigandi með 40% hlut. Fjárfesting Magn er áætluð að hámarki 300 m.kr. en heildarstærð verkefnisins er áætluð 2,2 ma. kr. og er lánsfjármögnun áætluð á bilinu 70 – 80%.

Í leyfinu felst réttur fyrir hið óstofnaða félag til að framleiða 64 Gwh af orku árlega. Þar sem núverandi raforkulög í Færeyjum heimila enn sem komið er ekki einkaaðilum að selja rafmagn beint til neytenda verður raforkan sem áætlað er að félagið framleiði selt til opinbera raforkufélagsins í Færeyjum, SEV, á föstu verði. Verði af breytingum á færeysku orkulöggjöfinni gefst Magn tækifæri á að ganga inn í kaupin á orkunni á sama verði og SEV. Magn gæti þannig styrkt vöruframboð sitt og um leið selt orku og aðra tengda þjónustu beint til neytenda á markaðsverði.

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs:

„Með þessu nýja samstarfsverkefni um uppbyggingu og rekstur vindmylla að Flatnahagi er Magn að taka annað mikilvægt skref inn í endurnýjanlega orkugeirann í Færeyjum en árið 2018 keypti félagið Demich, sem sérhæfir sig í umhverfisvænum húshitunarlausnum. Það hentar okkur vel að vera í minnihluta með öflugum samstarfsaðila í verkefni sem þessu, þar sem það takmarkar fjárfestinguna á þessu stigi en opnar á mikil tækifæri opnist orkumarkaðir í Færeyjum frekar. Þetta skref passar því vel við langtímastefnu okkar í Færeyjum sem og við markmið Skeljungs um að bjóða upp á fjölbreytt úrval orkugjafa í sátt við umhverfið. Með þessari fjárfestingu tel ég að Skeljungur sé að auka enn meir fjölbreytni í vöruframboði sínu og taka leiðandi skref í uppbyggingu vistvænna orkugjafa.”

Nánari upplýsingar veitir Árni Pétur Jónsson, forstjóri, [email protected].

Skeljungur er orkufyrirtæki sem selur vörur og þjónustu á Íslandi, í Færeyjum og á Norður-Atlantshafinu. Meginstarfsemi félagsins er innflutningur, birgðahald, sala og dreifing á eldsneyti og eldsneytistengdum vörum. Félagið starfrækir 76 eldsneytisstöðvar og 6 birgðastöðvar á Íslandi og í Færeyjum. Auk þess rekur selur félagið áburð og efnavörur á Íslandi og rekur verslanir og þjónustar og selur olíu til húshitunar í Færeyjum. Viðskiptavinir Skeljungs spanna frá einstaklingum til fyrirtækja, í sjávarútvegi, landbúnaði, flutningum, flugi og til verktaka. Starfsemin er rekin undir merkjunum Skeljungur, Orkan, OrkanX og Magn. Meginmarkmið Skeljungs er að þjóna orkuþörf einstaklinga og fyrirtækja á hagkvæman og öruggan máta í sátt við umhverfi sitt.

www.skeljungur.is

https://www.linkedin.com/company/skeljungur-hf/

Leave a comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *